Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig er þetta hægt?

Húsbóndinn á erindi við útlönd á morgun - heljarinnar skemmtileiðangur, veiðar, golf, vín og villtar meyjar (kallar með bumbu). Hann ætlar að vera í vinnunni eitthvað fram yfir 11 í kvöld, ýmislegt sem þarf jú að klára. Hann er ekki farinn að pakka, allt í lagi með það - en það sem ég skil ekki er að fötin hans eru öll óhrein og hann er ekkert að spá í að þvo þau. Kannski fylgir þrífikona með hótelherberginu sem sér um að þvo og strauja fyrir hann. Vona bara að hann taki hana með heim svo ég þurfi ekki að vera að hafa áhyggjur af þessu Halo

Frú Nefmælt


Verkaskiptingartuð

2 af börnunum á leiðinni í próf á morgun. Mamman þarf að vinna að stóru verkefni. Pabbinn að vinna við tölvuna sína. Mamman hlýðir yfir barni 1, eldar svo matinn, leggur á borð, gengur frá eftir matinn, setur í uppþvottavélina, þurrkar af borðum, hlýðir yfir barni 2 og brýtur saman þvott í leiðinni, burstar tennur í börnum 1 og 2, fær þau í háttinn með fortölum, les fyrir þau, kúrir þau niður, hleypur 2svar sinnum til hvors barns til að "breiða betur yfir", "svara smá spurningu", "róa vegna prófkvíða" og "finna bangsa" og sest svo loksins við tölvuna til að sinna verkefninu.

Pabbinn kemur rétt í því að mamman sest:
"Ertu ekki lúin?" what
"Þarftu ekki að taka þér smá hvíld?"
"Eigum við að spila? eða kannski horfa á mynd?"
"Þarftu að vinna verkefni? Getur það ekki bara beðið? Þú átt sko skilið smá hvíld núna!"

???? Er maðurinn að grínast?

Kokmælt


Hip og kúl - tuð

Það er fátt sorglegra en að horfa á fullorðinn karlmann reyna að vera á sama level og 14 ára dóttir hans. Að sjá hann uppgötva að hún er ekki litla stelpan hans lengur og reyna að nálgast hana með því að verða "hip og kúl". Sérstaklega vegna þess að hann er ekkert "hip og kúl".
Hann hættir ekkert að vera pabbi gamli, nú er hann bara pabbi gamli sem reynir að vera "hip og kúl" og mistekst hraplega. Af því það sem hann man sem "hip og kúl" er orðið 25+ ára gamalt.
Ég græði reyndar heilmikið á þessu. Ég held ég hafi sjaldan hlegið jafn mikið og undanfarið. Auðvitað veit enginn í fjölskyldunni (nema kannski unglingurinn) af hverju ég er að hlæja. Hann heldur að það sé bara svona óskaplega létt yfir minni. Heldur að hann sé svona fyndinn, sem hann jú er, en ekki af þeirri ástæðu sem hann heldur. Hann heldur að ég sé að hlæja með honum þegar ég er bara að hlæja að honum.
Hann vex vonandi uppúr þessu greyið.

Kokmælt


Af hverju hafa konur ekki heila eins og karlmenn?

Þær vantar typpi til að geyma hann í... 

HVERNIG Á AÐ FARA Í STURTU EINS OG KONA

Farðu úr fötunum og raðaðu þeim í flokkaðar "óhreina-taus-körfur" Ein fyrir ljósan þvott, ein fyrir dökkan, ein fyrir hvítan, og ein fyrir sérstaklega viðkvæm efni.

Gakktu í átt að baðherberginu í síðum slopp. Ef húsbóndinn sér til þín á leiðinni, mundu þá að hylja allt nakið hold og flýta þér inná baðherbergið.

 

Horfðu á sjálfan þig í speglinum, ýttu maganum fram og kvartaðu í smástund við sjálfa þig yfir því hvað þú ert að verða feit. Stígðu inn í sturtuna. Athugaðu hvort að eftirfarandi sé ekki örugglega við hendina: andlits-þvottapokinn, handarkrika-þvottapokinn, fyrir-neðan-mitti-þvottapokinn, grófi nudd-þvottapokinn og siðast en ekki síst .. appelsínu-húðar-nudd-steinninn.

 

Þvoðu hárið einu sinni með Agúrku og Ginseng sjampóinu .. þessu sem inniheldur 83 nauðsynleg vítamín fyrir hárið.

 

Þvoðu hárið aftur með Agúrku og Ginseng sjampóinu .. þessu sem inniheldur 83 nauðsynleg vítamín fyrir hárið.

 

Notaðu Agúrku/Ginseng næringuna .. þessari með viðbættu Burkna olíunni og láttu standa í hárinu í 15 mínútur.Þvoðu þér í framan með Apríkósu-skröbbinu í tíu mínútur .. eða sirka þangað til þig fer að svíða verulega.

 

Þvoðu restina af líkamanum með Ginger/Jaffa-Cake líkams-sápunni.Skolaðu næringuna úr hárinu í sirka 15 mínútur .. svo að örugglega öll afgangs næring hreinsist í burtu.

 

Ef húsbóndinn sturtar niður, sem leiðir til þess að vatnið hjá þér hitnar í smástund, skaltu öskra brjálæðislega og kalla hann öllum illum nöfnum.

 

Skrúfaðu fyrir sturtuna. Þurrkaðu upp alla bleytu í sturtunni. Notaðu Ajax sturtu sprey til að ná upp háglans á flísarnar. Ekki gleyma að athuga gólfið fyrir framan sturtuna og þurrka upp hvern einasta dropa.

 

Farðu úr sturtunni. Þurrkaðu þig með handklæði sem er á stærð við lítið Afríku ríki.

 

Pakkaðu hárinu inn í annað, extra rakadrægt, handklæði. Skoðaðu allan líkamann í leit að minnsta blett eða hári. Notaðu neglur eða flísatöng til að gera útaf við það sem þú finnur.

Gakktu í átt að svefnherberginu í síðum slopp með handklæðið ennþá á höfðinu. Myndu að hylja allt nakið hold .. ef húsbóndinn er nálægt .. og flýttu þér í átt að svefnherberginu. Ekki eyða undir hálftíma í að klæða þig.

AÐ FARA Í STURTU EINS OG KARLMAÐUR


Farðu úr fötunum, sitjandi á rúminu, og skildu þau eftir í hrúgu fyrir framan rúmið. Gakktu nakinn í átt að baðherberginu. Ef konan sér þig á leiðinni, hristu þá "vininn" í áttina að henni og segðu "Vúúííí".

 

Skoðaðu karlmannlegt vaxtarlag þitt í speglinum og dragðu djúpt inn andann til að athuga hvort þú sért með "sixpakk" (sem þú ert ekki með.)

 

Horfðu með aðdáun á stærðina á "félaganum", gríptu um hann og segðu "Jú vona pís of ðis beibí".

 

Farðu í sturtuna. Ekki hafa fyrir því að leita að þvottapoka ? ekki nota hann ef þú rekst á hann.

 

Þvoðu þér í framan, undir höndum og "vöðvann". Hlæðu kjánalega yfir því hvað það heyrist hátt þegar þú rekur við í sturtu. Notaðu sjampó í hárið en ekki nota næringu. Búðu til móíkana-kamp með sjampóið í hárinu. Dragðu aðeins frá sturtuhengið til að sjá sjálfan þig í speglinum (tihihihii).

 

Pissaðu (í sturtunni að sjálfsögðu). Skolaðu þig og farðu úr sturtunni. Ekki taka eftir vatninu á gólfinu (sem kom til af því að þú hafðir hengið fyrir utan sturtubotninn.)

 

Þurrkaðu þér lauslega. Horfðu á sjálfan þig í speglinum. Taktu nokkrar "pósur" og horfðu með aðdáun á stærðina á "jókernum" (aftur).

 

Ekki draga fyrir sturtuna, og skildu eftir blautt gólf. Ekki slökkva inná baði. Gakktu í átt að svefnherberginu með handklæðið um mittið. Ef þú rekst á konuna, dragðu þá handklæðið frá, gríptu um "gosann", taktu eina Elvis-sveiflu og segðu "Sssjabúmm".

 

Athugaðu hvort nærbuxurnar séu blettóttar, ef ekki, farðu þá í þær.Taktu sundur sokkaparið á gólfinu. Brjóttu aðeins úr þeim, og farðu í þá. Farðu í nýjan bol, en vertu annars í sömu fötum og þú notaðir í gær.

Kokmælt


Laugardagur

Við erum svona búin að vera að henda keflinu á milli í dag. Hann þurfti að skjótast, ég var heima á meðan. Svo þurfti ég að skjótast (kaupa í matinn) og hann var heima á meðan. Þegar ég kom heim skaust hann aftur. Svosem allt í lagi. Nema þegar hann er að skjótast þá er ég að stinga í vél, ganga frá dóti, taka úr uppþvottavélinni, þegar ég er að skjótast er hann að... veitiggi, kíkja á sjónvarpið, tékka á tölvunni, snúast í kringum sjálfan sig, allavega ekki að gera neitt á sameiginlega vinnustaðnum okkar. Fúlt.

Nefmælt


Evuraunir

Vaknaði upp við vondan draum 15 árum síðar: Maðurinn sem ég valdi mér til frambúðar þegar ég var 16 ára þroskuð kona (að eigin mati) hentaði mér alls ekki. Það eina skynsamlega í stöðunni var að skila honum heim í hosíló til mömmu sinnar.

 Þegar ég var sextán var hann tuttug'ogeins - þegar ég varð tuttug'og eins náði ég honum. Hann hafði nefnilega ekkert elst. Svo fór ég bara fram úr honum og varð sífellt eldri og þroskaðri, hann var alltaf sami mömmustrákurinn.  Nema núna var það ég sem var mamman. Ég, litla ákvörðunarfælna, hlédræga, feimna sveitastelpan var allt í einu farin að draga vagninn fyrir þriggja manna fjölskyldu. Þar sem hann var ekki tilbúinn að koma út úr mínu stóra og hlýja skjóli og taka ábyrgð á eigin lífi, varð ég bara að gera það fyrir hann (eins og margt annað) með því að taka nánast einhliða ákvörðun um skilnað.

Í hönd fóru frjálsir dagar. Það var gott að þurfa bara að taka ábyrgð á sjálfum sér og barninu og ekki með fullorðinn fúlann kall í eftirdragi. Þetta var lífið!!

En Eva var ekki lengi í Paradís. Ég þurfti nefnilega að berja frá mér karlpeninginn þegar fréttist að gyðjan ég væri skilin og komin aftur á "markaðinn". Svo nú var úr vöndu að ráða. Loks tók Amor gamli völdin og afhenti mér einn vænlegan, sterkan og sjálfstæðan einstakling sem mundi nú ekki fara að breyta ungri konu í mömmmu sína til að halda í pilsfaldinum á henni.

Svona eftir á að hyggja er hann full sjálfstæður. Það er ekki nokkur leið að hafa stjórn á þessum manni! En af tvennu illu...

Nefmælt


Vorverkatuð

Þú hefðir betur sleppt því að losa hann úr barkanum Nefmælt.

Annar í páskum og Hann ákvað að nú væri fríið búið. Hann er í stuði fyrir vorverk í garðinum og þá skulu sko allir hjálpa til! Sama hvað aðrir fjölskyldumeðlimir eru að gera, nú eiga allir að hjálpast að.
Hrífur, svartir ruslapokar, strákústar, hæsnaskítur og grasfræ rifið útúr skúrnum og raðað fyrir framan hús og síðan er verkefnum útdeilt af hörku sem sæmir hvaða herforingja sem er.
Þvotturinn má bíða, lærdómur barnanna má bíða, páskaeggin mega bíða, hádegismaturinn má bíða - NÚNA ætlum við að taka til í garðinum og ekkert væl hér takk!

Ég reyndi þetta einu sinni með húsþrifin. NÚNA ættu allir að hjálpast að við að þrífa. Tók fram tuskur, fötur, Ajax, rúðusprey, ryksugu, gólftusku og skrúbb og raðaði við eldhúsið. Útdeildi svo verkefnum á alla fjölskyldumeðlimi. Það fór klukkutími í að reyna að halda fjölskyldumeðlimunum við efnið og 3 tímar í að þrífa húsið - ein og sjálf. Þarf greinilega að taka námskeið í herstjórn.

Kokmælt


Puð

Ég viðurkenni hérmeð, að þrátt fyrir stöku jafnréttistuð er ég líka gamaldags í hugsun. Ég vill til dæmis að karlmaðurinn minn sjái um að þrífa geymsluna, svalirnar, gluggana að utan og bílinn. Hann hefur jú líkamlega burði til að bera kassana og dótið í geymslunni, það er hann sem ruslar til á svölunum og bíllinn er bara mál karlmannsins. Punktur.

Í þetta eina skipti sem hann tók til í geymslunni var meira drasl eftir en áður. Hann nennir ekki að taka til á svölunum eða þrífa glugga. Bíllinn hvað? 

Svo ég geri þetta bara sjálf - eins og megnið af öllu hinu sem til fellur á heimilinu.

Nefmælt

 

(ps - Kokmælt, fór og losaði manninn úr barkanum, hann sagði að þetta væri allt mér að kenna!)

 

 


Ferðatuð

5 mannafjölskylda + 4 daga ferðalag = 1/2 dagur í að pakka niður og undirbúa.

Herrann heldur að slíkt gerist sjálfkrafa. Sefur þar til klukkustund fyrir áætlaðan brottfarartíma, skellir sér þá í sturtu og er tilbúinn. Verður alveg steinhissa þegar ég bendi á opna tösku á rúminu og segi að hann geti bætt í hana því sem hann ætli að taka með.
"Varstu ekki búin að pakka góðu náttbuxunum mínum?"
"En tannburstanum, bókinni minni eða nærfötum?"
"Svo var ég að hugsa um að reyna kannski að komast á skíði, voru skíðagræjurnar komnar með?"
Nei, nei, nei og nei. Hélt hann myndi missa andlitið. pirruð

"Núnú, mín bara í svona skapi í dag - ha? Bara komin í hátíðarskapið - ha? Er Rósa frænka kannski í heimsókn - ha?"

Þið finnið hann í kústaskápnum, bakvið skúringarfötuna með ryksugubarkann vafinn um hálsinn. Hann var enn á lífi þegar við fórum.

Kokmælt


Fermingartuð

Hvers vegna eiga fermingarstelpur að líta út eins og litlar gamlar kellingar?
Sem fara úr kuflinum og líta út eins og litlar gleðikonur með kellingahárgreiðslu?
Helmingurinn af þeim appelsínugulur og hinn helmingurinn dökk brúnn, inn á milli ein og ein með eðlilegan húðlit sem sker sig úr eins og dúfa í páfuglahópi.
Ekki mitt fermingarbarn, sem betur fer. Hún var ein af dúfunum.

Kokmælt


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband