Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Grillið glamraði

Sumargrill

Grilltímabilið í hámarki. Allir að grilla. Húsmæður gleðjast yfir því að þurfa ekki að standa yfir pottunum, því bóndinn sér um grillið. VEI!

Þannig gengur þetta fyrir sig:

Frúin verslar í matinn.
Frúin býr til salat, græjar grænmeti sem á að grilla, og býr til sósu.
Frúin undirbýr kjötið. Finnur til réttu kryddin, setur kjötið á bakka ásamt grilláhöldum.
Bóndinn situr við grillið, með bjór í annarri.

Lykilatriði: Bóndinn setur kjötið á grillið!

Frúin fer inn, finnur til diska og hnífapör.
Frúin fer út, og segir bóndanum að kjötið sé að brenna.
Bóndinn þakkar henni fyrir, og biður hana um að koma með annan bjór á meðan hann tæklar ástandið.

Annað lykilatriði: Bóndinn tekur kjötið af grillinu, og réttir frúnni.

Frúin leggur á borð.
Diskar, hnífapör, sósur, salöt og annað meðlæti, raðar á borðið.
Eftir matinn gengur frúin frá öllu.

Mikilvægast af öllu: Allir þakka BÓNDANUM fyrir matinn, og hversu vel HONUM tókst upp.

Bóndinn spyr frúna hvernig henni hafi líkað "frídagurinn"... og eftir að hafa séð svipinn á henni, ákveður hann að það er ómögulegt að gera konum til geðs.

Kokmælt (klippt og límt úr tölvupósti)


Ekkert að óttast

Vegna athugasemdar Katrínar M við færsluna hér að neðan verð ég að róa hana með því að það er ekkert að óttast. Þetta getur stundum tekið á en þetta er nauðsynlegur hluti af þroskaferli konu - að ala upp mann.

Mitt ráð er að muna að "þolinmæði þrautir vinnur allar" og "það er allt auðveldara ef þú mætir því með brosi" (veit ekki hvort þetta er spakmæli eða ekki, þetta er alla vega spaklega mælt).
Svo er ágætt að hafa bakvið eyrað að það þarf ekki stjarneðlisfræðing til að fatta að mjólkin gengur ekki sjálf í ísskápinn, þvegillinn dansar ekki yfir gólfin allar nætur og klósettin verða óhrein við notkun. Ef hinn útvaldi á erfitt með að átta sig á þessu er spurning um að fara með hann í greindar- og þroskapróf. Ef slíkt próf kemur illa út er ekki hægt að áfellast þig þó þú skilir honum.

Kokmælt

 


Sérfræðingurinn

Nú þori ég ekki alveg að alhæfa, en minn maður er þannig að um leið og hann snertir á einhverju er hann Sérfræðingurinn. Þegar hann eldar mat (sem kemur örsjaldan fyrir), þá er það tilefni í marga frægðarsöguna: dass af þessu, dass af hinu, svissa örstutt á grillinu og svo í ofninn þar til það er orðið mjúkt eins og kvenmannslæri. Sögunni fylgir ekki að það er konan sem kaupir kjötið, kryddar það eða leggur í lög og útbýr síðan allt meðlætið.
Svp eru það gólfefnin. Þegar hann er í "kaupa parket" ferlinu, veit hann ekki bara allt um millimetra, áferð og endingu, heldur líka hvað fyrirtækið er með mikla álagningu og hvernig sölutæknin er í fyrirtækinu: "Uss, þeir selja þetta út á sjöþúsundkall fermetrann, en í innkaupum kostar þetta ekki nema þúsundkallinn. Svo gefa þeir einhvern típrósent afslátt til að hafa kúnnann góðan". Og þá veistu það. Það sem karlmaðurinn segir eru almenn lög og djúphugsuð speki svo það er eins gott að reyna ekkert að þræta...


Hugleiðing

Ég sá fingur standa uppúr drullusvaði. Ég náði taki á þeim með erfiðismunum og tók þéttingsfast um þá.
Svo hófst vinnan við að toga, draga og ná þér uppúr drullunni. Sú vinna var ekki auðveld en ég gafst ekki upp. Þegar olnbogarnir voru komnir uppúr gerðist eitthvað og þú sökkst aftur upp að úlnliðum en ég gafst ekki upp. Með þolinmæði, þrautseigju, ást og umhyggju náði ég að draga höfuðið á þér upp úr svaðinu.
Þú leist á mig og brostir. Svo lagðirðu hendurnar um hálsinn á mér og tókst til við að hífa þig upp. Við tókum hvorugt eftir því að um leið tók ég að síga niður. Þegar axlirnar á þér voru lausar þá voru ökklarnir á mér komnir í kaf.
Þú varst svo ákveðinn í að losna úr prísundinni að þú tókst að toga þig upp af ákefð og um leið að þrýsta mér hraðar niður. Þegar þú náðir að losa annan fótinn settirðu hann á hnéð á mér og spyrntir í, hnéð á mér fór á kaf.
Þú náðir að setja fótinn sem var þegar laus á öxlina á mér og nú spyrntirðu í af öllum kröftum. Þú varst hættur að líta á mig, hættur að líta niður, nú horfðirðu bara upp og áfram. Ég var sokkin upp að hálsi þegar ég loksins áttaði mig á hættunni og reyndi að biðja þig um að fara varlegar svo ég sykki ekki í þinn stað en þú tókst ekki eftir því.
Með lokaátaki settirðu fótinn á höfuðið á mér, spyrntir fast í og náðir að losa þig. Höfuðið á mér var komið í kaf.
Þú fagnaðir frelsinu og gekkst í burt.

Kokmælt


Hvað má bjóða yður?

Sko, ef HANN mundi bjóða mér að velja hvort ég vildi frekar að hann skúraði gólfin eða færði mér blóm - þá væri ekki spurning hvort ég mundi velja. Ég gæti svo bara sjálf farið í blómabúðina og náð mér í vönd þegar það værði orðið hreint heima hjá mér...

Nefmælt


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband