Ættarmótsraunir

Á tveggja ára fresti kemst ég ekki hjá því að pakka niður fjölskyldunni og slást við náttúruöflin í 2-4 sólarhringa. Þetta geri ég af einskærri tryggð við Eiginmanninn og fjölskylduna hans megin (og kannski smá fyrir gríslingana). Af hverju skyldi þetta vera svona mikil kvöð? Ég er búin að vera að hugsa nokkuð um þessa andstöðu mína og akkúrat núna, nokkrum dögum eftir Hryllinginn Mikla, eru þær mér í svo fersku minni að ég ákvað að festa þær á blað. Síðan ætla ég að setja þessa síðu í minni sem poppar upp á tveggja ára fresti, til ég geti vegið og metið ávinning, álag, kosti og galla, áður en ég ákveð hvort ég fari með

- Ég sé alfarið alein um að kaupa í matinn, fara í ríkið, tína til útilegudraslið og fá lánað það sem upp á vantar.
- Ég sé alfarið alein um að ákveða hvað þarf að taka með af fötum, sængum, svefnpokum og öðru sem þarf til að halda passlegu hitastigi á fjölskyldunni.
- Eftir sólardag kólnar svo snögglega að það er sama hvað ég fer í margar ullarnærbuxur, flísbuxur, lambhúshettur og lopavettlinga - ég hætti ekki að skjálfa!
- Ég er ekki fyrr búin að ná upp nægjanlegum líkamshita inni í helv. tjaldgopanum að ég vakna upp með andfælum. Sólin er komin upp (klukkan nýorðin 6) og orðið ólíft í tjaldinu fyrir hita.
- Partur af fyrrnefndum pirringi gæti líka stafað af því að ég sofnði svo seint, ástæðan fyrir því er næsti pirringur sem er líklega sá versti:
- Krakkaormarnir orðnir þreyttir og pirraðir og fást með engu tauti ofan í poka nema mamman komi með inn í tjald (pabbinn er að sjálfsögðu ekki inni í myndinni hérna). Klukktutíma síðar, þegar ormunum hefur tekist að sofna þrátt fyrir glasaglaum, hlátur og gleði beint fyrir framan tjaldið - er mamman orðin svo pirruð og fúl að henni tekst alls ekki að sofna. Pirringurinn vex svo í réttu hlutfalli við hávaðann úti, og er orðinn svo svakalegur að mamman neyðist til að fara út úr tjaldinu svo hún kafni ekki í eigin fýlu. Ekki tekur þá betra við því að ekki vill hún að glasaglamrararnir úti sjái til sín, því að þeir eru þær manneskjur sem hún vill síst af öllu hitta núna - og ALLS EKKI EIGINMANNINN!!! Því laumast hún niður í fjöru þar sem hún getur fnæst og frýst í friði þartil hrollurinn er aftur orðinn allsráðandi og tími til að koma sér aftur inn í tjald og orna sér við hitann af litlum líkömum (sá stóri er nottla enn úti að skemmta sér, algjörlega ómeðvitaður um að hann eigi fjölskyldu innan seilingar).
- Daginn eftir á Tengdamamman og gömlu frænkurnar ekki orð yfir því hvað karlpeningurinn í hópnum skemmti sér vel daginn áður, já þeir kunna þetta sko strákarnir!! Það er ekki minnst einu orði á allar duglegu eiginkonurnar sem sáu um að elda, ganga frá og koma börnunum niður svo "blessaðir drengirnir" gætu nú skemmt sér eins og þeir ættu skilið.

 

Hef komist að lokaniðurstöðu: Ég hata útilegur!

kveðja
Nefmælt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

Samúðaróskir.

krossgata, 2.7.2007 kl. 18:43

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Vá, þvílíkt fórnarlamb!!! 

Þú varst líka búin að ákveða áður en þú lagðir af stað að þetta væri ÖMURLEGT.  Óskin rættist auðvitað.  Þér fannst þetta ÖMURLEGT!

Prófaðu að gera hið gagnstæða að markmiði.  Tryggðu með öllum ráðum að þér sé ekki kalt.  Flís næst húðinni og vélsleðagalli utan yfir.  Skothelt!

Að lokum þarftu að tryggja að ÞÉR leiðist ekki.  Takt ÞÚ af skarið og haltu gerðu eitthvað sem þér finnst skemmtilegt, t.d. með hinum konunum þannig að ÞIÐ skemmtið ykkur en ekki bara karlarnir.

Ertu lax eða loðna?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.7.2007 kl. 19:02

3 Smámynd: Nefmælt og Kokmælt

.. ég er innpúki, anti-sportisti, bóhem.. ætli það flokkist ekki sem loðna . Og svona þér að segja, fyrst að þú sýndir áhuga, þá sneri ég þessu einmitt við seinna kvöldið og sendi kallinn í tjaldholuna með börnin - en kalt var mér samt, þrátt fyrir tvöfölt af öllu því hlýjasta sem til er útvortis og öl innvortis...

Nefmælt og Kokmælt, 2.7.2007 kl. 19:07

4 identicon

Snilldarblogg.....

Díta (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 12:11

5 Smámynd: Nefmælt og Kokmælt

Útilega - ojjjjjfojjjj.

Loðnukveðjur - kokmælt

Nefmælt og Kokmælt, 3.7.2007 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband