Félagsmótun

Einu sinni var lítil stelpa. Henni fannst skemmtilegast að leika sér úti í sandinum og moldinni og kom alltaf haugskítug inn. Hún hafði yndi af því að handleika ánamaðka og snigla og rannsaka flugur og köngulær. Skemmtilegast var að vera úti í mikilli rigningu og verða rennandi blaut og finna fullt af ormum. Moldin er líka meðfærilegri þegar hún er mjög blaut. Foreldrar hennar sýndu þessu áhugamáli mikinn áhuga og fannst gaman að eiga svona flotta stelpu. Þau voru mjög dugleg að taka myndir af henni brosandi út að eyrum í skítagallanum.
Svo byrjaði daman á leikskóla. Henni líkaði það vel og var hin ánægðasta þar, en féll ekki alveg inn í prinsessuhópinn. Hélt hún þó uppteknum hætti og lék sér enn í mold og sandi. Var hin ánægðasta og dundaði þá bara ein í sandkassanum ef enginn vildi vera með.
Mótmæli létu á sér kræla hjá góða barninu þegar skólagangan hófst en hún var fljót að taka hann í sátt og varð námskona mikil og dugleg. Þegar hún var 8 ára langaði hana mest í smásjá í afmælisgjöf, til að geta skoðað í henni pöddur. Henni varð að ósk sinni. Enn féll hún ekkert sérlega vel inn í prinsessuhópinn.
Allt í einu var litla stelpan orðin stór. Henni fannst skordýr ógeðsleg, sem og almenningssundlaugar sem voru bara gróðrastía baktería að hennar mati.  Áhuginn á smásjánni var horfinn. Hún var farin að mála fallega andilitið sitt og lita fína hárið sitt. Hún féll ágætlega í prinsessuhópinn.

Svo ég spyr: Hvaða gagn er í því að senda litlu stelpuna sína á Hjallastefnuleikskóla svo að hún læri að slást og borða ormabrauð og vera ekki veimiltíta. Félagsmótunin nær henni samt. Í gegnum þjóðfélagið, skólann, sjónvarpið og félagana, lærir hún að halda kjafti og vera sæt. Stelpur hafa ekki áhuga á skordýrum og vilja ekki vera allar í mold og sandi.
Ég elska hana samt út af lífinu.

kveðja
Nefmælt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband