10.6.2007 | 14:40
Hugleiðing
Ég sá fingur standa uppúr drullusvaði. Ég náði taki á þeim með erfiðismunum og tók þéttingsfast um þá.
Svo hófst vinnan við að toga, draga og ná þér uppúr drullunni. Sú vinna var ekki auðveld en ég gafst ekki upp. Þegar olnbogarnir voru komnir uppúr gerðist eitthvað og þú sökkst aftur upp að úlnliðum en ég gafst ekki upp. Með þolinmæði, þrautseigju, ást og umhyggju náði ég að draga höfuðið á þér upp úr svaðinu.
Þú leist á mig og brostir. Svo lagðirðu hendurnar um hálsinn á mér og tókst til við að hífa þig upp. Við tókum hvorugt eftir því að um leið tók ég að síga niður. Þegar axlirnar á þér voru lausar þá voru ökklarnir á mér komnir í kaf.
Þú varst svo ákveðinn í að losna úr prísundinni að þú tókst að toga þig upp af ákefð og um leið að þrýsta mér hraðar niður. Þegar þú náðir að losa annan fótinn settirðu hann á hnéð á mér og spyrntir í, hnéð á mér fór á kaf.
Þú náðir að setja fótinn sem var þegar laus á öxlina á mér og nú spyrntirðu í af öllum kröftum. Þú varst hættur að líta á mig, hættur að líta niður, nú horfðirðu bara upp og áfram. Ég var sokkin upp að hálsi þegar ég loksins áttaði mig á hættunni og reyndi að biðja þig um að fara varlegar svo ég sykki ekki í þinn stað en þú tókst ekki eftir því.
Með lokaátaki settirðu fótinn á höfuðið á mér, spyrntir fast í og náðir að losa þig. Höfuðið á mér var komið í kaf.
Þú fagnaðir frelsinu og gekkst í burt.
Kokmælt
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:11 | Facebook
Athugasemdir
Flott!
Díta (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 21:37
...og hvað svo, er framhald í næstu viku? Ég fylgist spennt með!
kveðja
þín Nefmælt
Nefmælt og Kokmælt, 10.6.2007 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.