Reynsluheimur kvenna

12 ára dóttirin vöknuð fyrst á virkum degi, aldrei slíku vant. Situr á rúmstokknum þegar móðirin rankar við sér. Fullri meðvitund er ekki enn náð þegar heyrist í litlu prinsessunni:
"Mamma, mig vantar bindi"

Jisúsguðminnalmáttugur. Þögul upphrópun. Móðirin sér næstu mánuðina renna fyrir augum sér. Er ekki nóg að vera með einn ungling, stútfullan af hormónum. Innilokaðan í herberginu, kemur varla út í björtu nema rétt til að nærast. Skapvondur á morgnana, skítsæmilegur í hádeginu, skástur á kvöldin. Sefur allar helgar, vakir flestar nætur. Er hægt að leggja tvöfaldan skammt af þessu á nokkurn, er það eitthvað sem hægt er að ætlast til af venjulegri móður?

Opnar augun varfærnislega, horfir á undurfrítt, barnslegt og bólulaust andlit litla engilsins og í sömu andrá og hún hugsar hvort hún sé að missa þetta barn líka segir unginn:

"Mamma.... bindi, manst'ekki? Allar stelpurnar í miðstiginu ætluðu að vera með bindi í skólanum í dag af því að það er bráðum ball.... "

Slapp með skrekkinn í þetta sinn
Feminísk kveðja

Nefmælt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband