Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Undarleg uppgötvun

Klósettþrif eru eitt það leiðinlegasta sem ég geri. Þess vegna reyni ég yfirleitt að ljúka þeim af snöggt og vel.
Tók mig til um helgina og vopnaðist hönskum, tusku, hreinsilegi og skrúbbum og réðist á gestaklóið. Þegar ég nálgaðist hitt baðherbergið smeygði Hann sér inn og sagðist hafa verið búinn að bíða svo lengi eftir að komast í rakstur. Ég nennti ekki alveg að bíða eftir því með hanskana, tuskurnar, skrúbbinn og hreinsilöginn svo ég sagðist ætla að skella mér í sturtu og bað hann um að þrífa bara klósettið þegar rakstrinum lyki.
Ég átti langa góða sturtuferð með öllu fylgjandi dúlleríi (sjá færslu hér að neðan).
Þegar ég stíg útúr sturtunni sé ég að Hann stendur með hreinsilöginn í hendinni og rýnir í brúsann. NB hann stillti sér þannig upp að það væri nú alveg öruggt að ég sæi hann um leið og ég stigi útúr sturtunni og að ég áttaði mig strax á að eitthvað væri að. Ég ákvað að skipta mér ekki af honum heldur þurrka mér í rólegheitum. Hann haggast ekki. Þá veit ég að hann mun standa þarna þangað til ég segi eitthvað svo ég spyr hann hvort það sé eitthvað vandamál.
Hann: "Ég er bara að athuga hvernig þetta virkar"
Ég: "Hva, hefurðu aldrei þrifið klósett áður - hehe?"
Hann: "Nei"
Ég: ... já ég sagði eiginlega ekki neitt, ég átti ekki orð. Mér leið eiginlega eins og asna, fífli og fávita í einum stórum pakka. Átti ég að trúa því að ég hafi búið með þessum manni í rúmlega 10 ár og að hann hafi ALDREI þrifið klósett?
Hann náði sínu ekki fram (sem var auðvitað að ég nennti ekki að kenna honum að þrífa klósett heldur myndi gera það sjálf) heldur sagð ég honum í stuttu máli hvernig þetta fer fram og svo yfirgaf ég hann.
Hann reyndi næstu taktík sem var að þrífa klósettið eins illa og hægt er að komast upp með þegar maður er með allar græjur.

Voru ekki einhverjir menntaskólakrakkar á Akureyri að gefa út DVD disk með leiðbeiningum um þrif á heimilum? Klósettum, örbylgjuofnum og fleiru? Það verður sko DVD í jólapakkanum hans!

Kokmælt


Ljúfir dagar

Það er alveg agalegt þegar ég þarf að vinna svona frameftir á kvöldin. Ekki nóg með að Eiginmaðurinn þyrfti að gefa börnunum að borða heldur þurfti hann að koma þeim í háttinn líka. Enda var hann steinsofnaður ofan á rúmteppinu í öllum fötunum þessi elska, þegar ég kom heim á miðnætti.
Ég dreif mig að ganga frá í eldhúsinu áður en ég ýtti mjúklega við honum og aðstoðaði hann við að hátta áður en ég breiddi yfir hann sængina. Ég hreiðraði svo um mig á bríkinni og reyndi að sofna.
Börnin hafa greinilega verið agalega erfið við hann, því að hann var byrjaður að bylta sér um 5 í morgun. Verð nú að viðurkenna að ég varð hálffegin þegar hann brölti framúr, ég næði þá að breiða aðeins úr mér í litla rúminu okkar og festa almennilega blund. 
Í svefnrofunum heyrði ég í honum frammi, stígandi á dót og reka sig í húsgögn (æji, hefði átt að taka betur til áður en ég fór inn að sofa). Ég var rétt að festa blund þegar hann kom aftur upp í, svo ég dreif mig aftur yfir á bríkina til að hann fengi nú aðeins að sofa þessi elska.

Það eru engin takmörk fyrir því hvað hann er alltaf hugulsamur við mig. Þegar ég fór framúr rúmlega 7 að vekja börnin og taka til morgunmat - sá ég að hann hafði skilið allt eftir á borðinu. Þar sem börnunum er illa við að mjólkin og ávaxtasafinn séu hálf-volg, setti ég það í ísskápinn auk smjörsins, ostsins og skinkunnar. Svo gekk ég frá brauðinu og hófst handa við að tína til morgunkorn og elda graut. Svo passaði ég ekki upp á að vekja hann á réttum tíma, þannig að hann var hálf stressaður að koma sér af stað, en hann var ósköp skilningsríkur við mig engu að síður.

Já það er nú meiri lúxusinn að vera svona vel giftur, best að halda áfram að vinna.

Kveðja og bros
Nefmælt


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband