Ljúfir dagar

Það er alveg agalegt þegar ég þarf að vinna svona frameftir á kvöldin. Ekki nóg með að Eiginmaðurinn þyrfti að gefa börnunum að borða heldur þurfti hann að koma þeim í háttinn líka. Enda var hann steinsofnaður ofan á rúmteppinu í öllum fötunum þessi elska, þegar ég kom heim á miðnætti.
Ég dreif mig að ganga frá í eldhúsinu áður en ég ýtti mjúklega við honum og aðstoðaði hann við að hátta áður en ég breiddi yfir hann sængina. Ég hreiðraði svo um mig á bríkinni og reyndi að sofna.
Börnin hafa greinilega verið agalega erfið við hann, því að hann var byrjaður að bylta sér um 5 í morgun. Verð nú að viðurkenna að ég varð hálffegin þegar hann brölti framúr, ég næði þá að breiða aðeins úr mér í litla rúminu okkar og festa almennilega blund. 
Í svefnrofunum heyrði ég í honum frammi, stígandi á dót og reka sig í húsgögn (æji, hefði átt að taka betur til áður en ég fór inn að sofa). Ég var rétt að festa blund þegar hann kom aftur upp í, svo ég dreif mig aftur yfir á bríkina til að hann fengi nú aðeins að sofa þessi elska.

Það eru engin takmörk fyrir því hvað hann er alltaf hugulsamur við mig. Þegar ég fór framúr rúmlega 7 að vekja börnin og taka til morgunmat - sá ég að hann hafði skilið allt eftir á borðinu. Þar sem börnunum er illa við að mjólkin og ávaxtasafinn séu hálf-volg, setti ég það í ísskápinn auk smjörsins, ostsins og skinkunnar. Svo gekk ég frá brauðinu og hófst handa við að tína til morgunkorn og elda graut. Svo passaði ég ekki upp á að vekja hann á réttum tíma, þannig að hann var hálf stressaður að koma sér af stað, en hann var ósköp skilningsríkur við mig engu að síður.

Já það er nú meiri lúxusinn að vera svona vel giftur, best að halda áfram að vinna.

Kveðja og bros
Nefmælt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband