Ástarsaga á netinu

Á eihverjum bloggrúnginum í einhverju letikastinu, datt ég inn á svo skemmtilega bloggsíðu hjá manni sem ég þekkti ekki neitt. Fór að fylgjast með honum öðru hvoru, svona eins og maður gerir. Hann bjó greinilega einn, átti son frá fyrra sambandi sem bjó hjá móður sinni en var í ágætu sambandi við. Hann skrifaði á skemmtilega kaldhæðinn hátt, um ömurleika piparsveinalífsins, þvæling á milli mis subbulegra skemmtistaða og gerði óvægið grín að óþörfum hlutum eins og ást, unnustum og heimilislífi. Gerði þetta vel, skemmtilegur penni.

Svo fór að bera við að tónninn í blogginu fór að breytast. Smátt og smátt kom á daginn að maðurinn var orðinn ástfanginn upp fyrir haus. Þegar hann nefndi nafnið á unnustunni bar forvitnin mig ofurliði og ég gúgglaði konu greyið og fann bloggsíðuna hennar. Svona yndislega ástarsögu hef ég ekki orðið "vitni" að, hvorki fyrr né síðar. Ást þeirra og aðdáun á hinum aðilanum var svo falleg og yndisleg. Ég er ekki að tala um að þetta hafi verið væmnar ástarjátningar á báða bóga, maður svona las það meira í gegnum línurnar. Ég fylgdist með því þegar þau hófu búskap, stóðu í hreiðurgerð, undirbjuggu brúðkaup og giftu sig. Þvílík gleði. Í hönd fóru ljúfir dagar göngutúra, fjölskyldumatarboða og kósíheita.
Dag einn, þegar ég ætlaði að tékka á hvernig gengi hjá "vini" mínum, var síðan hans farin. Allt var hljótt á síðu eiginkonunnar, þar til dag einn birtist dularfull færsla um breytta hagi og vonda líðan.
Mér leið eins og einhver hefði svikið mig sjálfa. Ég vildi ekki trúa að þessi fallega gagnkvæma ást væri farin, búin, horfin. En það virðist vera raunin og eftir sit ég (kannski fleiri) og geri mér grein fyrir hverfulleika lífsins og mannskepnunnar. Soddan er livet!

kveðja
Nefmælt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Þessi færsla er góð,afar góð. Ég fór að hugsa út í þetta og til þess eru blogg, að maður spái í hlutina

Ragnheiður , 29.9.2007 kl. 13:07

2 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Já, ég kom af fjöllum núna um daginn þegar ég hitti brúðurina fyrrverandi. Ég var meira að segja ennþá með hlekk á vefsíðu hennar fyrrverandi, en þangað var komin einhver auglýsingasíða honum óviðkomandi.

Svona gerist þegar maður passar ekki upp á að setja uppáhaldsbloggin sín í RSS lesarann sinn.

Elías Halldór Ágústsson, 30.9.2007 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband