7.11.2007 | 09:36
Er ég með þennan kall á heilanum eða hvað???
Suma daga er hann prinsinn minn. Ég pressa buxurnar hans, strauja skyrturnar og fer með jakkana í hreinsun. Ég vek hann blíðlega á morgnana, elda góðan mat og held fín matarboð sem hæfa prinsi. Tíni þolinmóð upp eftir hann og læt renna í baðið.
Aðra daga er hann kyntröllið mitt. Með ómótstæðilega upphandleggi, sætan rass og sterkleg læri. Öllu er slegið á frest til að ná honum sem fyrst í rúmið.
Fáa daga er hann Fúllyndi gaurinn. Tuðar yfir vanheilsu, álagi, samstarfsfólki. Er óþolinmóður og öskrar á börnin, lítur sambýliskonuna hornauga.
Oft er hann tröllkarlinn. Með feita bumbu og illa lyktandi tær. Hárið er úfið og tennurnar óburstaðar. Hann yrðir ekki á nokkurn mann, slafrar í sig matnum og brýtur glös. Þungstígur og skellir á eftir sér hurðinni.
Ég bý semsagt með fjórum mönnum. Held samt að þessi upptalning segi meira um mig og mínar skapsveiflur heldur en geðslag og upplag sambýlismannsins.
Luvvv
Nefmælt
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.