Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Félagsmótun

Einu sinni var lítil stelpa. Henni fannst skemmtilegast að leika sér úti í sandinum og moldinni og kom alltaf haugskítug inn. Hún hafði yndi af því að handleika ánamaðka og snigla og rannsaka flugur og köngulær. Skemmtilegast var að vera úti í mikilli rigningu og verða rennandi blaut og finna fullt af ormum. Moldin er líka meðfærilegri þegar hún er mjög blaut. Foreldrar hennar sýndu þessu áhugamáli mikinn áhuga og fannst gaman að eiga svona flotta stelpu. Þau voru mjög dugleg að taka myndir af henni brosandi út að eyrum í skítagallanum.
Svo byrjaði daman á leikskóla. Henni líkaði það vel og var hin ánægðasta þar, en féll ekki alveg inn í prinsessuhópinn. Hélt hún þó uppteknum hætti og lék sér enn í mold og sandi. Var hin ánægðasta og dundaði þá bara ein í sandkassanum ef enginn vildi vera með.
Mótmæli létu á sér kræla hjá góða barninu þegar skólagangan hófst en hún var fljót að taka hann í sátt og varð námskona mikil og dugleg. Þegar hún var 8 ára langaði hana mest í smásjá í afmælisgjöf, til að geta skoðað í henni pöddur. Henni varð að ósk sinni. Enn féll hún ekkert sérlega vel inn í prinsessuhópinn.
Allt í einu var litla stelpan orðin stór. Henni fannst skordýr ógeðsleg, sem og almenningssundlaugar sem voru bara gróðrastía baktería að hennar mati.  Áhuginn á smásjánni var horfinn. Hún var farin að mála fallega andilitið sitt og lita fína hárið sitt. Hún féll ágætlega í prinsessuhópinn.

Svo ég spyr: Hvaða gagn er í því að senda litlu stelpuna sína á Hjallastefnuleikskóla svo að hún læri að slást og borða ormabrauð og vera ekki veimiltíta. Félagsmótunin nær henni samt. Í gegnum þjóðfélagið, skólann, sjónvarpið og félagana, lærir hún að halda kjafti og vera sæt. Stelpur hafa ekki áhuga á skordýrum og vilja ekki vera allar í mold og sandi.
Ég elska hana samt út af lífinu.

kveðja
Nefmælt


Ástarsaga á netinu

Á eihverjum bloggrúnginum í einhverju letikastinu, datt ég inn á svo skemmtilega bloggsíðu hjá manni sem ég þekkti ekki neitt. Fór að fylgjast með honum öðru hvoru, svona eins og maður gerir. Hann bjó greinilega einn, átti son frá fyrra sambandi sem bjó hjá móður sinni en var í ágætu sambandi við. Hann skrifaði á skemmtilega kaldhæðinn hátt, um ömurleika piparsveinalífsins, þvæling á milli mis subbulegra skemmtistaða og gerði óvægið grín að óþörfum hlutum eins og ást, unnustum og heimilislífi. Gerði þetta vel, skemmtilegur penni.

Svo fór að bera við að tónninn í blogginu fór að breytast. Smátt og smátt kom á daginn að maðurinn var orðinn ástfanginn upp fyrir haus. Þegar hann nefndi nafnið á unnustunni bar forvitnin mig ofurliði og ég gúgglaði konu greyið og fann bloggsíðuna hennar. Svona yndislega ástarsögu hef ég ekki orðið "vitni" að, hvorki fyrr né síðar. Ást þeirra og aðdáun á hinum aðilanum var svo falleg og yndisleg. Ég er ekki að tala um að þetta hafi verið væmnar ástarjátningar á báða bóga, maður svona las það meira í gegnum línurnar. Ég fylgdist með því þegar þau hófu búskap, stóðu í hreiðurgerð, undirbjuggu brúðkaup og giftu sig. Þvílík gleði. Í hönd fóru ljúfir dagar göngutúra, fjölskyldumatarboða og kósíheita.
Dag einn, þegar ég ætlaði að tékka á hvernig gengi hjá "vini" mínum, var síðan hans farin. Allt var hljótt á síðu eiginkonunnar, þar til dag einn birtist dularfull færsla um breytta hagi og vonda líðan.
Mér leið eins og einhver hefði svikið mig sjálfa. Ég vildi ekki trúa að þessi fallega gagnkvæma ást væri farin, búin, horfin. En það virðist vera raunin og eftir sit ég (kannski fleiri) og geri mér grein fyrir hverfulleika lífsins og mannskepnunnar. Soddan er livet!

kveðja
Nefmælt


Jiiii hvað maður er orðinn gamall

Á þessu herrans ári 2007 eru löglega taldir sem fullorðnir einstaklingar á Íslandi allir þeir sem fæddust árið 1989.

-Þegar þau fæddust kunnir þú að skrifa, lesa, leggja saman, draga frá og hluta af margföldunartöflunni.

-Þau muna sama og ekkert eftir Reagan-tímabilinu og fréttu aldrei af því þegar reynt var að drepa hann.

-Þau muna heldur ekki eftir leiðtogafundinum sem haldinn var í Höfða og vita fátt um Gorbatsjoff.

-Þau voru ekki kynþroska þegar Persaflóastríðið hófst.

-Fyrir þeim hefur sami páfinn verið í Vatikaninu síðan þau fæddust.

-Þau sungu aldrei "We are the world, we are the children".

-Þau voru 5 ára þegar Sovétríkin féllu.

-Þau muna fátt eftir kalda stríðinu og síður eftir Austur- og Vestur-Þýskalandi, þó svo að þau hafi heyrt afþeim í sögutímum.

-Þau eru of ung til þess að muna eftir því þegar Challenger-geimflaugin sprakk og munu sennilega aldrei vita hvað Pepsi-áskorunin var.

-Fyrir þeim hefur AIDS verið til alla ævi.

-Þau léku sér aldrei með ATARI-tölvuleiki, geisladiskurinn kom á markaðinn 2 árum áður en þau fæddust, þau hafa aldrei átt plötuspilara og hafa sennilega aldrei leikið sér með Pac-man.

-Þegar talað er um BETA-vídeóspólur hafa þau ekki hugmynd.

-Star Wars og Súperman finnast þeim frekar slappar myndir og tæknibrellurnar ömurlegar.

-Mörg þeirra hafa ekki hugmynd um að einu sinni var ekkert til nema Ríkissjónvarpið sem fór í frí á fimmtudögum og í júlí.

-Þau muna heldur ekki eftir því þegar Rás 2 var eina rásin í útvarpinu fyrir utan Rás 1, og sú eina sem spilaði annað en klassíska tónlist.

-Þau hafa áreiðanlega aldrei hlustað á útvarpssögur eða Lög unga fólksins eða Óskalög sjúklinga og sjómanna og Bessi Bjarnason hefur aldrei verið ungur.

-Fá hafa séð svart-hvítt sjónvarp og þeim finnst fáránlegt að þurfa að hækka og lækka og skipta um stöð án þess að hafa fjarstýringu.

-Þau fæddust ári eftir að Sony hóf sölu á vasadiskóum og fyrir þeim hafa hjólaskautar alltaf verið línuskautar.

-Þeim hefur alltaf þótt farsímar og PC tölvur vera óskaplega eðlilegir hlutir, ekkert nýtt.

-Þau hafa ólíklega séð Húsið á sléttunni, Þórð húsvörð í Stundinni okkar og Einu sinni var.-Þau hugsa aldrei um "Jaws" þegar þau fara í sjóinn, Michael Jackson hefur alltaf verið hvítur...og hvernig er mögulegt að John Travolta hafi einhverntíman dansað, svona feitur maður! Olivia Newton-John? HVER??!!

- Þeim finnst lítið fyndið að vitna í Með allt á hreinu, Nýtt líf og Stellu í orlofi.

-Þau muna ekki hverjir Þorgeir Ástvaldsson, Geiri Sæm og Herbert Guðmundsson eru.

-Nafnið Hemmi Gunn segir heldur ekki margt.

-Madonna hefur alltaf verið fræg og nöfn eins og Duran Duran, Wham, Culture Club, Thompson Twins, Tears for Fears, Rickshaw, Limahl, Terence Trent D´Arby, Talking heads og Modern Talking hljóma ekki kunnuglega.

-Þau muna ekki eftir BMX-hjóla tímabilinu og break-dance tímabilinu.

-Þau hafa ekki hugmynd um hvað Millet-úlpur og Don Cano voru merkileg fyrirbæri.

-Þau vita sennilega ekki að strætó var einusinni grænn og að tíkallar og fimmtíukallar voru seðlar.

-Þau hafa aldrei keypt fimmaurakúlur og muna ekkert eftir því að hafa notað aura.

-Þau vita ekki hvað Karnabær var og hafa aldrei séð Tommaborgara sem merkilegt fyrirbæri.

-Þau hafa alltaf getað pantað mat heim og alltaf verið vön tilveru kreditkorta.

-Munið kæru vinir að þetta fólk er unga fólkið í dag.

Merki þess að þú ert farin/n að eldast:

1. Þegar þú lest þennan texta og brosir.; )

2. Þegar þú stundar íþróttir og lætur alla vita með miklu stolti.

3. Þegar þú geymir bækur, vatnsglas og vaselín á náttborðinu.

4. Þegar fyllerí og kelerí eru ekki lengur umræðuefni.

5. Þegar börn tala við þig eins og þú talaðir við "fullorðna fólkið" fyrir stuttu.

6. Þegar "fullorðna fólkið" talar við þig eins og jafnaldra.

7. Þegar þú þarft meira hálfan dag til þess að jafna þig eftir vökunótt.

8. Þegar vinir þínir eru allir giftir.

9. Þegar litla frændfólkið þitt er farið að sníkja sígarettur eða áfengi.

10.Þegar litla frændfólkið þitt veit meira um tölvur en þú.

11.Þegar þú getur farið á ströndina og eytt heilum degi án þess að fara í sjóinn.

12.Þegar þú stundar líkamsrækt í fötum sem fela líkamann í stað þess að sýna hann.

13.Þegar þú vilt frekar hitta vini þína í stað þess að kjafta klukkutímum saman í símann.

14.Þegar þú veist hvað þú vilt.

15.Þegar þér líst betur á afslöppunarkvöld en partýkvöld.

16.Þegar þú horfir á fréttir og Kastljós og hefur virkilega áhuga.

17.Þegar þú lest Moggann í heilu lagi og hefur skoðun á næstum öllu.

18.Þegar þú ert aldrei spurð/ur um skilríki.

19.Þegar þú og vinir þínir eruð farin að finna grá hár.

20.Þegar þú ákveður að senda þetta bréf til vina sem hafa áreiðanlega gaman að því.

Kokmælt Tounge


Þú vannst!

Ferlega fara þeir í taugarnar á mér sem eru alltaf í samkeppni um það hver á meira bágt, hefur meira að gera, er þreyttari o.s.frv.

Kannist þið við þetta?

Ég: "Ég er að drukkna í vinnu, þarf að skila skýrslu á morgun og er ekki byrjuð á henni".
Hann: "Ég er sko með 400 ósvöruð email í inboxinu mínu".

eða

Ég: "Voðalega er ég slöpp, vona að ég sé ekki að fá flensu".
Hann: "Hóst, hóst, ég er búin að vera slappur í allan dag".

Eða eitthvað í þessum dúr.

Ég er farin að taka upp á því að segja "þú vannst" eða "þú vinnur" í hvert skipti sem ég fæ svona komment.

Honum finnst það ekki fyndið.

Kokmælt


Spurning

Hvað gerir maður við brúðkaupsmyndir af sjálfum sér og fyrrverandi eiginmanni, voða fínar teknar á ljósmyndastofu? Beats me...

Eftirá(hár)greiðslur

Villtist inn á heimabankann og asnaðist til að skoða hvað næsti visa reikningur verður hár. Hann verður svimandi. Svo ég fór að lesa í gegn:
blablablabla matur 
blablablabla vín
blablablabla matur
blablablabla matur
blablablabla húsgögn
blablablabla matur
blablablabla snyrtistofan
blablablabla matur
blablablabla matur
blablablabla hárgreiðslustofan
blablablabla matur
...............

Ef ég á að vera hreinskilinn er miklu meira matur en þarna er skrifað, allt blablablabla þýðir nefnilega matur. Það er búið að éta megnið af honum. Færslan frá hárgreiðslustofunni er svimandi há, reyndar sjampó þar og næring sem endist vonandi eitthvað fram að jólum, en hárið er óneitanlega farið að vaxa úr sér aftur. En snyrtistofan mar!! splæsti á mig allskonar vaxi og dótaríi og fínaríi af því að ég var að fara í veislu, en missti svo af henni af óviðráðanlegum örsökum. Hef bara verið í síðermabolum og vinnubuxum síðan og ekkert verið að flagga neinu fíneríi, og núna er allt ógeðið farið að vaxa aftur (og ég ekki að tíma að "vaxa"). Vínið er ég auðvitað búin að drekka með bestu lyst þó svo að ekkert hafi verið tilefnið.
Niðurstaða: Maturinn uppétinn, vínið drukkið og höfuð og líkamshár farin að vaxa villt.
ÁÐUR EN ÉG ER BÚIN AÐ BORGA FYRIR ÞAÐ!!Það er þrennt í stöðunni

  1. Hætta að nota kreditkort (glætan.. og lifa á hverju þegar ég er búin að eyða öllum peningnum í að borga neyslu síðasta mánaðar)
  2. Hætta að eyða í vín, föt og snyrtistofur (og hvað.. enda eins og sú gamla í færslunni hér fyrir neðan?)
  3. Fara á námskeið í heimilisbókhaldi(over my dead body.. bolalegast í heimi!!)

Kannski get ég bara farið fram á að þurfa ekki að borga fyrir það sem sést ekki lengur. Þá standa bara húsgögnin eftir og ég er alveg til í að borga það.. hvað haldið þið?

(ótrúlega góð ritunaræfing að skrifa blablablabla.. hvet ykkur til að prófa)

kveðja
Nefmælt


Hár, föt og vín

I was walking down the street when I was accosted by a particularly dirty  and shabby-looking homeless woman who asked me for a couple of dollars for dinner.
I took out my wallet, got out ten dollars and asked,

"If I give you this money, will you buy some wine with it instead of dinner?" 

"No, I had to stop drinking years ago", the homeless woman told me.

"Will you use it to go shopping instead of buying food?" I asked.

"No, I don't waste time shopping," the homeless woman said. "I need to spend  all my time trying to stay alive." 

"Will you spend this on a beauty salon instead of food?" I asked. 

"Are you NUTS!" replied the homeless woman "I haven't had my hair done in 20 years!"

"Well," I said, "I'm not going to give you the money. Instead, I'm going to take you out for dinner with my husband and me tonight." 

The homeless woman was shocked. "Won't your husband be furious with you for doing that? I know I'm dirty, and I probably smell pretty disgusting." 

I said, "That's okay. It's important for him to see what a woman looks like after she has given up shopping, hair appointments, and wine."

Kokmælt


Getraun

Fyrir svona fimm árum síðan mætti ég í safnaðarheimili eitt til að aðstoða vinkonu mína við að undirbúa fermingarveislu. Sem ég geng í salinn er lítill kór að æfa við píanóundirleik. Ég er mikil áhugamanneskja um söng og horfi  því  velþóknun yfir hópinn samhliða göngunni. Sé ég þá ekki svona svakalega sjarmerandi mann sem stendur við endann og syngur af innlifun með hinum. Meðalmaður á hæð, dökkhærður, dökkur yfirlitum, þykkar augabrúnir, sexý varir, ómótstæðileg útgeislun... hann horfði á móti og sendi mér geislandi bros. Ég rankaði við mér rétt í þann mund sem ég var við það að ganga beint á veisluborðið. Þá rann það upp fyrir mér að eitthvað kannaðist ég nú við manninn.. hafði sé hann áður - var hann í auglýsingu? gamall skólabróðir? (ekki gamall kærasti svo mikið er víst, því hefði ég munað eftir). Þá laust því allt í einu niður í hausinn á mér, þetta var krúttið úr tómatsósuauglýsingunn, hver man ekki eftir:

Hann: "Þú segir núðlur"
Hún: "og þú segi pasta"
Hann: "Þú segir punktur"
Hún: "..ég segi basta"
Bæði: "Og þó við séum ekki sammál' um neeitt, þá er við þó sammál' um eitt"

Hann er nú þó nokkuð þekktara andlit í dag en hann var þá. Núna fæ ég í hnén bara við að sjá hann á mynd. Hann er ótrúlega sexý svona í alvörunni. Hver er maðurinn?

 


Fyllerísmórall

Hvað er maður að þykjast eitthvað kominn á þennan aldur? Stenst  bara ekki áskorun og læt það ekki fréttast um mig að ég geti ekki skolað niður nokkrum Tequila skotum í framhaldi af villtri hvítvínsdrykkju. Þegar ég staulaðist út af skrautlegum bar í kringum miðnætti, tók ég þá vitrænu ákvörðun að labba heim. Horfði einbeitt á gangstéttarhellurnar upp allan Laugaveginn til að skjögra ekki áberandi mikið til hliðanna, hvernig á maður líka að geta gengið beint þegar sjónin flöktir svona hrikalega?

Tókst að hitta engan sem ég þekki á leiðinni, tókst að hitta með lyklinum í skráargatið, tókst að kasta mér upp í rúm í öllum fötunum áður en ég drapst. Þakka góðum vættum fyrir að hafa ekki gengið í flasið á unglingsbarninu mínu sem kom heim örskammri stundu síðar, og sambýlismanninum fyrir að hafa haft rænu á að loka inn til mín og slökkva ljósið svo barnið sæji ekki móður sína útúrdrukkna í öllum fötum uppi á rúminu.

Bara TAKK
Nefmælt


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband