Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Klisja hvað?

Sem ég eldist og þroskast kemst ég að því að ótrúlega margar klisjur er óþægilega sannar. Til dæmis klisjan um að karlmenn geti bara gert eitt í einu en konur kunni að múltítaska - so true so true! En það er ekki alltaf kostur.

Jú það er gott að geta talað í símann og tekið úr uppþvottavélinni í leiðinni.
Horft á fréttir og eldað í leiðinni.
Spjallað við vinkonuna, lagað kaffi OG sinnt börnunum, allt í einu.
Geta fylgst með þvottinum úti á snúru (hvort það sé nokkuð að fara að rigna), hlustað eftir barninu á svölunum, tekið til og þvegið þvotta.

Í tímaritum og uppeldisbókum les maður að unglingurinn þurfi 9-10 tíma svefn á nóttu. Mín reynsla er hinsvegar sú að hann sé gaufandi flestar nætur og bæti sér upp svefnleysið seinnipart laugardags og sunnudags. Og þar erum við komin að aðalgallanum við það að vera orðinn ofurþróaður í að múltítaska og hafa alla hluti á sinni könnu:

Mér er lífsins ómögulegt að njóta ásta með tröllkallinum vitandi af únglíngnum á vappi um íbúðina. Spuring um að fara að læsa hann bara inni í herberginu sínu eftir 12 á kvöldin, færi það fyrir nefnd?

kveðja
Nefmælt í kynsvelti


Vonbrigði

Það hefur sýnt sig enn og aftur að þegar kemur að pólítík höfum við konur ekkert að segja:

Á fimmtudaginn missum við sæta borgarstjórann og fáum aftur bara venjulegan kall!!!


Reynsluheimur kvenna

12 ára dóttirin vöknuð fyrst á virkum degi, aldrei slíku vant. Situr á rúmstokknum þegar móðirin rankar við sér. Fullri meðvitund er ekki enn náð þegar heyrist í litlu prinsessunni:
"Mamma, mig vantar bindi"

Jisúsguðminnalmáttugur. Þögul upphrópun. Móðirin sér næstu mánuðina renna fyrir augum sér. Er ekki nóg að vera með einn ungling, stútfullan af hormónum. Innilokaðan í herberginu, kemur varla út í björtu nema rétt til að nærast. Skapvondur á morgnana, skítsæmilegur í hádeginu, skástur á kvöldin. Sefur allar helgar, vakir flestar nætur. Er hægt að leggja tvöfaldan skammt af þessu á nokkurn, er það eitthvað sem hægt er að ætlast til af venjulegri móður?

Opnar augun varfærnislega, horfir á undurfrítt, barnslegt og bólulaust andlit litla engilsins og í sömu andrá og hún hugsar hvort hún sé að missa þetta barn líka segir unginn:

"Mamma.... bindi, manst'ekki? Allar stelpurnar í miðstiginu ætluðu að vera með bindi í skólanum í dag af því að það er bráðum ball.... "

Slapp með skrekkinn í þetta sinn
Feminísk kveðja

Nefmælt


Konur yfir fertugt

Frá Andy Rooney í 60 mínútum

Eftir því sem ég eldist, met ég mest konur yfir fertugt og her eru nokkrar ástæður fyrir því:

Kona yfir fertugt mun ekki vekja þig um miðja nótt og spyrja þig "hvað ertu að hugsa?"
Henni gæti ekki verið meira sama.

Ef kona yfir fertugt vill ekki horfa á leikinn með þér vælir hún ekki yfir því.
Hún gerir eitthvað sem hana langar til og yfirleitt er það áhugaverðara en leikurinn.

Konur yfir 40 eru virðulegar í framkomu. Þær fara sjaldan í öskurkeppni við þig í óperunni eða á fínum veitingastað.
Nema þú eigir það skilið, þá hika þær ekki við að skjóta þig ef þær halda að þær komist upp með það.

Eldri konur eru örlátar á hrós, oft óverðskuldað. Þær vita hvað það er að vera ekki metin að verðleikum.

Konur verða skyggnar með aldrinum.
Þú þarft aldrei að viðurkenna misbresti þína fyrir þeim.

Þegar þú getur litið framhjá einni eða tveimur hrukkum er kona yfir 40 langtum kynþokkafyllri en yngri kynsystur hennar.

Eldri konur eru hreinar og beinar.
Þær segja þér eins og skot að þú sért asni ef þú hagar þér sem slíkur.

Þú þarft aldrei að fara í grafgötur með hvar þú hefur þær.

Já, við dásömum konur yfir fertugt af mörgum ástæðum.

Því miður er það ekki gagnkvæmt. Því fyrir hverja glæsilega, smarta og vel greidda konu yfir fertugt, er sköllóttur, vambmikill forngripur í gulum buxum gerandi sig að fífli fyrir 22gja ára
gengilbeinu. Konur, ég biðst afsökunar.

Til allra þeirra karla sem segja; "Afhverju að kaupa kúna þegar þú getur fengið mjólkina frítt?" þá eru hér nýjar upplýsingar:

Nú á tímum eru 80% kvenna á móti giftingum.

Hvers vegna?

Vegna þess að konur gera sér grein fyrir að það borgar sig ekki að kaupa heilt svín þótt þær langi í smá pylsu!

Andy Rooney
(og Kokmælt)


Furðulegt samtal

Mamman: Bíddu, hvernig náðirðu að vera svona fljót heim úr skólanum?

Unglingurinn: Ég var skutluð.

Mamman: (smá fliss) ...! Varstu skutluð?

Unglingurinn: Æi, nei, þúst, það var skutlað mér.

GetLost Kokmælt

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband