Auðvitað eru þeir á heilunum á okkur - og við á þeirra

Ég bý ekki með fjórum mönnum eins og þú Nefmælt en ég gæti trúað að maðurinn minn segðist búa með ansi mörgum konum.

Hann býr með Húshjálpinni. Hún þrífur og eldar og hugsar um börnin og sér til þess að heimilið gangi smurt og snurðulaust. Þeirra samskipti snúa bara að rekstri Heimilisins ef.

Hann býr líka með Grýlu. Grýla er hundfúl og leiðinleg. Hún tuðar og nöldrar, verður reið og fer í fýlu. Hún gerir kröfur um að hann taki þátt í hlutum sem hann hefur ekki tíma fyrir og að hann sýni áhuga á því sem vekur engan áhuga hjá honum.

Stundum býr hann með Grasekkjunni. Hún er svo ljúf og blíð og góð. Hún saknar hans alltaf óheyrilega mikið og segir Love you og Miss you og Wish you were here þegar þau tala saman yfir hafið.

Hann býr líka með Mótþróapúkanum. Sem vill ekki fara með honum í sértrúarsöfnuðinn og trúir því ekki að hamingjan felist í viskunni sem þar finnst. Sem mun þess vegna aldrei höndla hamingjuna og sættir sig bara við að lifa lífi sem er varla þess virði að lifa því.

Svo býr hann með Gyðjunni. Hún er svo falleg og tælandi að hann stendur á öndinn og vill allt fyrir hana gera. Hann ber hana á örmum sér og eys hana lofi og gjöfum.

Þangað til hún breytist í Húshjálpina á miðnætti.

Kokmælt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband